Rímnabók eftir ýmsa höfunda III. Skrifuð 1885-1890 S. Gr. B. (1r)
„Hér hefur Rímur af Roneevals þætti, eður Rollant, kveðnar af Þórði Magnússyni á Strjúgi, skrifaðar hér eftir handriti Árna skálds Böðvarssonar, en hann hefir skrifað á Ingjaldshóli, og endað 14. júlí 1762.“
„Mörg hafa fræðin mætir fyr / meistarar diktað fróðir …“
18 rímur.
„Hér skrifast Rímur af Sveini Múkssyni, ortar af Kolbeini sál. Grímssyni.“
„Heiðólfs bát ég hrindi á dröfn / úr hreysi sagnar láða …“
„Þessar rímur eru skrifaðar eftir sama handriti og næstu rímur á undan, með hönd Árna Böðvarssonar, en aftast af síðustu rímunni vantar niðurlagið, líklega eitt blað í bókina. Þess vegna verður ekki séð nær þær hafi verið ortar, sem skáldið mun þó hafa getið um í niðurlaginu. Þær eru nú skrifaðar á Höfða í Dýrafirði, og endar þann 28. apríl, sem var sá fyrsti þriðjudagur í sumri, 1885. S. Gr. Borgfirðingur.“
23 rímur.
„Rímur af Gretti sterka, kveðnar af Kolbeini Grímssyni.“
„Skýrt mig orða skortir val / að skemmta fólki fínu …“
„Endaðar á Höfða í Dýrafirði, annan miðvikudag í sumri, sem þá var 6. maí 1885. Sighvatur Grímss: Borgfirðingur.“
20 rímur.
„Rímur af Nitída hinni frægu, ortar af Jóni Gottskálkssyni“
Uppkrift eftir handritinu ÍB 476 4to.
„Nú skal byrja náms við þey / af Nitída hinni frægu …“
„Handritið, sem eftir er skrifað, er bók í 4to, mjög fúin og skemmd, án blaðsíðu- og erindatals, með laglegu og jöfnu settletri. Þar eru á: 1. Nitída rímur og sést ekkert af fyrsta mansöngnum, sem hefur verið á fyrstu síðunni, en sem nú er límt yfir, 2. Rímur af Ingvari, 3. Rímur af Octovíanus og sonum hans (eða Flóres og Leó), aftur í 15. rímu, en þá vantar aftan af bókinni. Við endann á Nitída rímum er skrifað: "1055" - sem á að vera erindatalan í rímunum og með annarri hönd: "Í þessum rímum er 1134 erindi." - Skrifað á Höfða 14.-21. apríl 1890 af Sighvati Gr. B.“
18 rímur
„Rímur af Ingvari Ölvessyni.“
Uppkrift eftir handritinu ÍB 476 4to.
„Vænar sögur skáldin skýr / skrifa með greinum sönnum …“
„Þessar rímur eru nú upp skrifaðar á Höfða í Dýrafirði, byrjaðar 21. apríl, en endaðar þann 24. apríl, á sumardaginn fyrsta, 1890. - Handritið sem eftir er ritað, var svo maukfúið og dottin stykki úr blöðunum að sumstaðar var ólesandi, en þó hvað verst, að límt hafði verið upp á málið, sem ég gat sumstaðar ekki skafið af, vegna fúa. - Rímurnar eru tilí handritasafni Bókmenntafélagsins í Kaupmannahöfn nr. 52 í 4to og eru þar eignaðar Magnúsi Hallssyni. - Þær eru og til í safni Bókmenntafélagsins í Reykjavík á Sögubók, nr. 18 í 4 blaða broti með fyrirsögn: "Rímur af Ingvari Ölvissyni og þeim margfróðu köppum, Pretti og Narva, ásamt Capusi og Óttari. - Þær eru og [í] Safni Árna Magnússonar, nr. 616 E 4to, og í Stokkhólmi nr. 42 4to chart (brot); Sumir eigna þær Magnúsi Jónssyni prúða en aðrir Magnúsi Hallssyni, sem er ókunnugt skáld og segir dr. Jón Þorkelsson yngri að hann hafi máske verið Austfirðingur og hafi víst ekki lifað seinna en um miðju 17. aldar. - 24. apríl 1890. Sighvatur Gr. Borgfirðingur.“
12 rímur.
Pappír
Sighvatur Grímsson Borgfirðingur
Lbs 2265-2387 4to, eru meðal handrita þeirra, er safnið keypti af Sighvati Grímssyni Borgfirðingi með samningi June 20, 1906, og afhent voru að fullu eftir andlát hans, 1930.