„Mörður hét maður …“
„… hefir verið einn hver í þeirri ætt.“
og lýk ég þar Brennu-Njáls sögu.
Upphaf sögunnar er síðari tíma eyðufylling.
„Hér hefir upp Egils sögu“
„Úlfur hét maður son Bjálfa og Hallberu …“
„… Skúli hafði átt í víking vij. orrustur.“
Á bl. 99v hefur upphaf Arinbjarnarkviðu verið skrifað með yngri hendi en er nú útmáð.
„Ásbjörn hét maður …“
„… og þóttu allir mikilhæfir menn“
og lýk eg þar Finnboga sögu.
„Saga Ófeigs bandakarls“
„Ófeigur hét maður er bjó vestur i Miðfirði …“
„… með góðri frændsemi og lýkur þar þessari sögu.“
„Kormáks saga“
„Haraldur konungur hinn hárfagri réð fyrir Noregi …“
„… og var lengi í víkingu. Og lýkr þar sögu þessi.“
„Hér hefur Víga-Glúms sögu“
„Ingialdur hét maður son Helga hins magra …“
„… hér á landi.“
Og lýkur þar sögu Glúms.
„Af Katli“
„Ketill hét maður kallaður þrym …“
„… er Þangbrandur prestur kom til Íslands fell Helgi Droplaugarson.“
„Ölkofra saga“
„Þórhallur hét maður …“
„… meðan þeir lifðu.“
og lýkur þar sögu Ölkofra.
„Hallfreðar saga“
„Þorvaldur hét maður …“
„… er margt manna frá honum komið.“
Og lýkur hér sögu Hallfreðar.
„Laxdæla saga“
„Ketill flatnefur hét maður …“
„… og höfum vér ei heyrt þá sögu lengri.“
„Saga Þormóðar og Þorgeirs“
„Á dögum hins helga Ólafs konungs …“
„… lagði og …“
Blaðmerkt er 1-201 á rektósíðum með yngri hendi. Blaðstúfurinn 8bis var ekki talinn með. Hlaupið var yfir bl. 10 og 19. Blað 18 var merkt 20 og bl. 20 var merkt 18. Ekkert bl. vantar á milli 17 og 18, svo blað 20, sem er yngri viðbót á betur heima á eftir bl. 18 en á undan. Enn yngri hendi blaðmerkti með rauðu.
Upprunalega voru í Möðruvallabók 26 kver 8 blaða, þ.e. 16 bls. eða 32 dálkar. Fyrsta upprunalega kverið er týnt en í stað þess eru tvö kver frá 17. öld. Í því fyrra eru 5 blöð en af þeim eru aðeins 3 í fólíóstærð (bl. 5, 8, og 9v). Bl. 6 og 7 eru mjórri og hafa aðeins einn dálk. Í kveri IV er bætt við einu blaði (30), í kveri X eru 6 bl. (yzta legg vantar), í kveri XV eru fyrsta og síðasta bl. laus og óvíst hvort þau hafa myndað legg. (Sigurjón P. Ísaksson, Magnús Björnsson og Möðruvallabók (1994) og Andrea de Leeuw van Weenen, A grammar of Möðruvallabók (2000)).
Ein aðalhönd óþekkts skrifara, textaskrift undir áhrifum frá léttiskrift. Önnur hönd á vísum í Egils sögu og enn önnur á fyrirsögnum. Óvíst er hvort upphafsstafir eru einnig með þessari hendi eða hvort skrifarinn er e.t.v. sá sami og sá sem skrifaði vísurnar.
Á bl. 61r er einföld teikning af hengdum manni.
Á bl. 61v og 62r á milli Njálu og Eglu eru nokkrar teikningar og krot.
Á bl. 61v er mynd af tveimur mönnum að berjast og meðfylgjandi texti: Hér berjast þeir Egill Skallagrímsson og Ljótur inn bleiki.
Á bl. 62r er óskýr mynd af manni með atgeir í hendi?.
Á bl. 80r eru rissaðar upp tvær verur.
Á bl. 87v er mynd af litlu mannshöfði hálfsköllóttu með skegg. Sjálfsagt er hér komið höfuð Egils, því myndin er við þann stað í textanum þar sem Egill lýsir útliti sínu.
Fyrstu 11 blöð handritsins og bl. 20 og 30 eru 17. aldar eyðufyllingar á innskotsblöðum.
Bl. 9v endar á móðir Jórunnar var Álof. 10r (11r) hefst á: [Val]garðar hins grá var Úlfur aurgoði.
Bl. 18r lýkur á orðunum nú mun eg lá(ta). Þar á eftir kemur bl. 20 úr viðbótinni sem hefst á þar gefið ostur og smjör. Hann beiddist og endar: enn ef yður þykir betra a[ð] vér séum. Bl. 21 hefst aftur með orðinu kost.
Bókin er bundin í eikarspjöld (225 mm x 335 mm x 11 mm). Þau eru heldur lítil fyrir handritið og giskað er á að þau séu yngri en það. Bandið er opið í kjölinn. Kverin eru fest á fimm þvengi sem eru festir við spjöldin. Handritið var sett aftur í upprunalegt band af Anker Kyster árið 1928, en í lok 19. aldar var hún bundin í þrjú bindi en kverin lágu þá laus í tréspjöldunum.
Handritið var líklega skrifað á Möðruvöllum í Hörgárdal. Stefán Karlsson hefur með samanburðarrannsóknum sýnt fram á að handritið hafi verið skrifað á árunum 1330-1370, en í Katalog I, bls. 94, er það tímasett til fyrri hluta 14. aldar. Rithönd aðalskrifara hefur fundist á a.m.k. sex öðrum handritum og handritabrotum, sem flest fjalla um kristileg efni. Líkur eru á að þau hafi verið skrifuð á Norðurlandi, e.t.v. helst í Eyjafjarðarsýslu. Þessi handrit eru: AM 642 a I δ 4to, AM 325 XI 2b 4to, AM 240 V fol., AM 573 4to, AM 220 I fol., Lbs frg. 5, AM 173 c 4to, AM 229 II fol.
Árni Magnússon fékk handritið eftir Thomas Bartholin 1691, en hann hafði fengið það að gjöf frá Birni Magnússyni sýslumanni 1684 (sjá AM 435 a 4to, bl. 65v). Magnús Björnsson, lögmaður á Munkaþverá ritaði nafn sitt í handritið í stóru baðstofunni á Möðruvöllum á krossmessu vorið 1628 (bl. 18v). Eftir þeirri klausu var bókinni gefið nafn seint á 19. öld.
Stofnun Árna Magnússonar tók við handritinu 16. júlí 1974.
Frá 11. nóvember 2024 til febrúar 2025 er handritið ekki aðgengilegt. Það er á sýningunni „Heimur í orðum“ í Eddu.